Færsluflokkur: Lífstíll

Til hvers að vera í góðu skapi þegar maður getur verið í fýlu?

... og svo sagði hann; "gefðu þér tíma á hverjum degi til að vera þakklátur fyrir það sem þú hefur, fyrir augun, því án þeirra myndir þú ekki sjá fegurðina sem umlykur þig á hverjum degi, fyrir eyrun, því án þeirra myndir þú ekki ..." og svona hélt hann áfram!

Það eru mörg ár síðan ég hlustaði á þennan fyrirlestur en mér finnst alltaf gott að rifja upp þessan einfalda boðskap. Það er svo einfalt að týna sér í ææ´um, óó´um og aumingja ég´um þegar maður hefur það miklu mun betra en svo ofboðslega margir sem ekki ganga um með tárin í augunum yfir eigin vesöld.

Lífið er yndislegt alveg sama hvernig á það er litið! Þegar aumingjaskapurinn, sjálfsvorkunin og aðrir sjálfsskapaðir brestir knýja á dyr hversdagsins finnst mér ágætt að minna mig á að staða mín í dag er ekkert annað en samanlagðar afleiðingar þeirra ákvarðanna sem ég hef tekið hingað til. Þannig hlýtur að vera einfalt að draga þá ályktun að ef mig langar virkilega til að hafa hlutina einhvernvegin öðruvísi eða betri þá er eina leiðin að taka aðrar, betri og ígrundaðri ákvarðanir.

Góður maður hélt því einu sinni fram að besta skilgreiningin sem hann hefði heyrt á geðveiki væri sú að gera sömu hlutina alltaf eins í þeirri von að það kæmi til með að skila annari útkomu.

Nokkuð til í því!!!

Úr því að ég er dottinn í þessar hugleiðingar þá verð ég að fá að benda á frábæra bók sem vinur minn og félagi var að senda frá sér; "Þú ert það sem þú hugsar" eftir Guðjón Bergmann. Hann er búinn að vera með námskeið undir sama heiti núna í tæp 2 ár sem allir ættu að fara á sem ekki vilja "missa af" eigin lífi.

Mæli með því að gefa þessa bók í jólagjöf til þeirra sem ykkur þykir vænt um!

Gott í bili - Kveðja frá DK - Ingvar


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband