Það hefur margt gengið á síðan ég bloggaði síðast. Mamma kom í heimsókn og var hjá okkur í nokkra daga. Kalli bróðir kom síðustu helgi og átti með okkur frábærar stundir. Svo kom Nils systursonur minn kom sömu helgi og fór með okkur niður til Þýskalands.
Í síðustu viku byrjuðu krakkarnir á leikskólanum. Við vorum svo heppin að fá inni í leikskóla sem er u.þ.b. 100 metra frá húsinu okkar. Hjördís lagðist þó í flensu daginn eftir að hún byrjaði og náði að draga báða foreldra sína með sér í rúmið. Svo skiptumst við á með veikum mætti við að reyna að sinna börnunum á milli klósettferða og verð ég víst að viðurkenna að Sigrún stóð sig mun betur í því en ég. (Enda er það nú löngu sannað að karmenn verða mun veikari en konur þegar á reynir)
Ásbjörn er frekar óöruggur enn sem komið er á leikskólanum. Hann er nú samt kátur með það að það eru tveir íslenskir jafnaldrar hans með honum á deildinni í leikskólanum. Af honum er samt það að frétta að hann er búinn að læra að hjóla. Afi hans á Grafarbakka gaf honum hjól og það skipti engum togum að þegar hann settist á það í fyrsta skiptið hjólaði hann bara af stað, án hjálparadekkja og allt. Myndin hér að ofan var tekinn áður en hann settist á það í fyrsta skiptið. Hann vill koma hér á framfæri kossum og knúsum til afa síns.
Nú bíðum við bara eftir sumrinu sem er rétt handan við hornið. Konan er eitthvað að kvarta yfir því að hér rigni stundum en ég segi henni þá bara að því meira sem rignir í dag því betur kunnum við að meta sólina þegar hún sýnir sig á endanum.
Meira á sunnudaginn - Verða að klára að læra! - IJ
Vinir og fjölskylda | 26.2.2008 | 22:07 (breytt kl. 22:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Já það má segja að þessi nótt sé búin að vera í lengra lagi, enda morguninn rétt handan við hornið. Forsaga málsins er líka skondin.
Ég er á leiðinni til íslands til að veislustjórast og ákvað að fara degi fyrr heim og á ráðstefnu á Hilton hótelinu um markaðssetningu á netinu. Í gær var strax ljóst að vélinni myndi seinka eilítið þannig að ég sat bara í hægðum mínum heima þegar ósköpin dundu yfir.
SMS frá Iceland Express þess efnis að búið væri að sameina tvær vélar í eina og bröttför væri skv. áætlun kl. 20:30. En þar sem búið var að tilkynna seinkun áður þá var engin leið fyrir mig að ná lest til Kaupmannahafnar í tíma. Eftir smá skraf og ráðagerðir með konunni ég ákvað að bruna á bílnum og skilja fjölskynduna eftir bíllausa á meðan ég er á klakanum. Ég rétt náði að smella kossi á konuna og börnin og rauk illa gyrtur og ótilhafður út í bíl. Svo reiknaði ég út að ef ég héldi 140 km. meðalhraða, pissaði í gosflösku og sleppti því borða á leiðinni þá myndi ég ná í tæka tíð ....
En síðan eru liðin mörg ár, eins og segir í laginu. Núna, ellefu tímum síðar (klukkan að verða 05:30)bólar ekkert á vélinni frá íslandi. Farþegarnir með Icelandair kvöddu okkur með glotti rétt fyrir kl. 01:00 og var það önnur vélin sem fór frá þeim héðan í dag og eru þeir farþegar eflaust komnir heim og undir sæng.
En þetta er nú samt búið að vera skemmtileg nótt. Að vera strandaglópur á svona flottri flugstöð er frábært. Af öllum flugstöðvum sem ég hef komið í þá er ég nokkuð viss um að Kastrup sú besta til að eyða nótt til ráfs og rölts. Ég var nú líka svo heppinn að hitta góðan vin hérna, Bergsvein nokkurn bakara, en hann hafði vit á að fara með Icelandair. Ég virðist hins vegar ekki vera að fara neitt ... Svo hitti ég líka gamlan hestaferðafélaga frá skagafirði og félaga hans en þeir fóru á pöbbaröllt niður í Köben og eru komnir aftur hingaðút á flugvöll, VEL við skál og syngja, skagfirðingar ... o.s.frv.
En þó mætti vélin nú alveg fara að koma því skv. mínum útreikningum þá fer að líða að því að ég missi af ráðstefnunni sem byrjar kl. 9 á staðartíma.
Nú er búið að opna veitingastaðina og ég ætla að fá mér morgunkaffi.
Stuðkveðjur frá Kastrup - IJ -
Ps. Það var að koma SMS frá Iceland Depressed (06:00), vélin er farin í loftið frá Íslandi. Áætluð brottför rúmlega níu. Það er allt að verða vitlaust á vellinum, fólk grætur af gleði. Enda farið að óttast að sjá aldrei ættingja sína aftur.
Vinir og fjölskylda | 8.2.2008 | 04:42 (breytt kl. 05:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Nú er fjölskyldan búin að vera saman í þrjár vikur og dagarnir eru farnir að taka á sig mynd hversdagsleikans. Ekki svo að skilja að það sé ekki gott, þvert á móti. Við erum búin að taka upp úr öllum kössum og heimilið okkar er orðið hlýlegt og heimilislegt aftur, bara á öðrum stað í öðru landi.
Af okkur er annars það helst að ég verð eins og jó-jó á milli Esbjerg og Íslands fram til marsloka. Eins og sumir vita þá er ein af tekjulindum mínum sú að ég stýri veislum. (Smellið á tengilinn http://1000th.is/index.php?categoryid=44&p2_articleid=154) Þar sem ég er í námi þá er þetta ágætis aukabúgrein svona um helgar þó ég þurfi um langan veg að fara. Á næstunni er ég að fara allavega 5 sinnum til íslands í þeim tilgangi.
Þá legg ég af stað á föstudegi frá brautarpallinum kl. 13:41 og er lentur í Keflavík einhverjum 10 tímum síðar. Svo flýg ég heim á sunnudögum. Þetta er frekar töff að leggja á sig 20 tíma ferðalag nánast hverja helgi en svona er þetta, sumir taka námslán, ég stýri veislum.
Ég veit ekki alveg hvað er að koma yfir hana móður mína. Hún kom með okkur hingað út 11. Janúar til að vera okkur innan handar á meðan við vorum að koma okkur fyrir og nú sagði hún mér að hún væri á leiðinni aftur næstu helgi, svona í skreppitúr, þremur vikum seinna.Ekki svo að það sé ekki meiriháttar að fá gamla hrukkudýrið hingað út til okkar. Ohh hún er engri lík þessi elska. Svo er ég líka viss um að hún lesi þetta þanngi að ég segi það og skrifa hástöfum svo allir heyri, elsku mamma mín, Þú ert engri lík. Þú ert ein af fáum sem hefur, í gegnum lífið, haft meiri áhuga á velferð annara en þinni eigin. Fyrir það meira en annað mun ég alltaf virða þig og elska af öllu mínu hjarta.
Ég var að setja inn nýjar myndir sem við tókum í vikunni. Um helgina er búið að vera mikið um grímuklædd börn í nammi-leiðangrum. Þónokkrir hafa komið og sungið fyrir okkur og fengið nammi að launum. Annars komst hún Sigrún í nammipokann, þannig að það var ekki eins mikið til skiptanna fyrir aumingja börnin (ég elska´na nú samt!)
Meiri fréttir næsta sunnudag Kveðja frá Esbjerg Ingvar, Sigrún & co.Vinir og fjölskylda | 3.2.2008 | 19:50 (breytt 4.2.2008 kl. 10:08) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)