Við erum að koma "heim"!

Nú er allt að gerast. Við erum á fullu að pakka, þvo, gera og græja! Við eigum flug á fimmtudgsmorguninn en ætlum að bæta einum degi við páskafríið og leggja af stað í fyrramálið (miðvikudag).

Við keyrum til Köben í fyrramálið og förum í Dýragarðinn með krakkana. Svo gistum við annað kvöld hjá vinafólki og komum svo "heim".

Á sunnudaginn er svo komið að Jóhanni mínum að ganga í fullorðinna manna tölu og játast Kristni. Veislan verður uppi í bústað hjá mömmu og pabba og við búumst við ríflega 80 manns í veislu. Svo verðum við á íslandi til 29. mars þannig að við ættum að hafa tíma til að hitta vini og kunningja á þeim tíma.

Hlakka til að sjá sem flesta!!!!!!!! - Kveðja frá Esbjerg - IJ


Það er hægt að vera blankur og hamingjusamur!

happiness Það má nú segja að margt hafi breyst á stuttum tíma. Nú er komin smá reynsla á það að vera námsmaður í útlöndum með fjölskyldu á framfæri.

Það eru talsverð viðbrigði að fá ekki útborgað um mánaðamót eins og alltaf og þurfa allt í einu að hugsa sig tvisvar um áður en maður kaupir sér eitthvað.Langur vegur frá því að ég sé að kvarta um einhver blankheit og volæði. Þvert á móti. Það er frábært að vera í þeirri aðstöðu að þurfa að draga saman seglin og nýta það sem er til. Ég er farinn að nota alla hálffullu rakspírana mína, gömlu skyrturnar eru að öðlast nýtt líf og svo mætti lengi telja.

Það dýrmætasta í þessu öllur er að við erum að finna aftur það sem skiptir okkur mestu máli sem fjölskylda. Það er ekki aðkeypt afþreying sem gefur mest. Það eru þær stundir sem við verjum saman með krökkunum, í göngutúrum, bíltúrum og á leikvellinum. Það er ekkert að því að fara í bíó, sund, bowling, tívolí og Lególand endrum og eins, Það skilur hins vegar ekkert meira eftir sig þegar upp er staðið.

Ég er búinn að prufa það að vera hátekjumaður og eiga næga peninga um hver mánaðamót. Nú er ég námsmaður og á andkotann enga peninga í afgang. Ef ég ætti að bera saman þetta tvennt þá er engin spurning um hvort ég kjósi frekar. Þegar ég átti pening "átti" ég líka talsvert af leikföngum á afborgunum. Skuldbindingarnar voru margar og neyslan mikil. Þetta var góður tími en ekki eins innihaldsríkur og margur myndi ætla.

Það er margt undarlegt í gangi í henni veröld. Í dag "á" ég nánast engin leikföng en skemmti mér samt betur. Ég get ekki "keypt" eins mikið handa börnunum mínum og áður en er miklu nánara sambandi við þau. Ég "vinn" mun minna en er samt mun hamingjusamari. Við hjónaleysurnar höfum ekki mikla peninga á milli handana en rífumst mun sjaldnar, nánast aldrei … :o)

Ég held að ég sé að upplifa sönnun þess að hamingjuna er ekki að finna í veskinu heldur hjartanu. Það líður eflaust ekki sá dagur að þessi fróðleikur hljómi í eyrum okkar allra. Munurinn er bara sá að upplifa þennan boðskap í framkvæmd er annað en heyra hann frá öðrum eða að lesa hann í bók. Mér finnst ótrúleg verðmæti og forréttindi liggja í því að hafa fengið að spóla til baka fara í skóla aftur og fá að bremsa mig af í yfirborðskenndri, aðkeyptri veraldlegri funllnægju.

Þetta minnir mig á kvæði sem ég lærði í æsku og hefur nú öðlast nýtt líf hjá mér, ”Það er leikur að læra, leikur sá er mér kær. Að læra meira og meira, meira í dag en í gær!!! Ha, ha!

Það er hægt að vera blankur og hamingjusamur!

Kveðja frá Esbjerg - IJ 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband