Þetta verður öðruvísi blogg í dag. Ég er mikið búinn að hugsa síðustu vikur um það hvernig mér líður og hvort ég sé sáttur við það sem ég er að gera og þann farveg sem líf mitt er í dag. Svarið við þeirri spurningu er nú ósköp einfalt (og nú byrjar fagurgalið
!)
Ég er mikið sáttur. Mér gengur vel í náminu. Fjárhagslega ná endarnir alveg saman og meira að segja skarast aðeins og af öðrum í fjölskyldunni er sömu sögu að segja. Við erum á þeim stað í lífinu sem við erum leynt og ljóst búin að stefna að í langan, langan tíma, sem hlýtur að teljast sigur í baráttunni við örlögin.
Samt er eitt atriði sem er búið að vera að naga undirmeðvitundina leynt og ljóst síðustu vikur og nú er kominn tími fyrir mig að hleypa þeim vangaveltum fram í dagsljósið til þess að sjá þær í réttu ljósi. Ég hef trú á því að með því að deila þeim með þeim sem þetta nenna að lesa sé ég um leið að fyrirbyggja það að ég fresti þessu öllu lengur og andskotist af stað þá vinnu sem bíður mín.
Ég held að loksins núna sé ég sé ég tilbúinn í þessa vinnu. Allavega hefur það sótt mjög að mér sú hugsun að til þess að yfirstíga þá andlegu hindrun sem ég stend frammi fyrir í þag þurfi ég að snúa mér beint að kjarnarnum. Mér líður stundum eins og ég geti ekki lengur treyst sjálfum mér og því sem ég lofa sjálfum mér. Nú þarf ég að finna aðrar leiðir til að byggja upp sjálfs-traustið svo ég geti haldið áfram að þroskast og læra.
Síðan Davíð Oddson tók við borgarstjóraenbættinu í Reykjavík hef ég verið í stöðugri baráttu við viktina. Hún vil meina að ég sé talsvert yfir þeirri þyngd sem æskilegt er. En af hverju á ég að vera að vera að æsa mig yfir því? Jú ég eins og flestir læt of oft stjórnast af skoðunum annara og áliti. Af hverju að velta sér upp úr því? Jú vegna þess að það er í eðli okkar allra að sækjast eftir samþykki og forðast gagnrýni. Með örðum orðum, við sækjum alltaf í vellíðan og viljum forðumst vanlíðan.
Þar myndast oft spenna á milli hins góða og illa sem í mér býr og þeirra aðstæðna sem ég skapa þegar ég stend með súkkulaðistykkið í hendinni, vitandi það að það muni færa mér talsverða vellíðan á meðan ég treð því í andlitið á mér þangað til ég hugsa helvítis aumingi er ég að hafa ekki meiri sjálfsstjórn en þetta!!!!
Ég trúi því að það séu engin takmörk fyrir því hvað lífið hafi upp á að bjóða. En til að komast að því sjálfur kemst ég víst ekki hjá því að fara í smá kjarnavinnu með sjálfan mig og spyrja sjálfan mig spurninga sem kasti ljósi á þá hluti sem ekki hægt er að svara á yfirborðinu. Einhverstaðar las ég að ef þér líkar ekki við svörin sem þú færð þá skaltu spyrja betri spurninga.
Nú ætla ég að breyta þeirri þrálátu hugsun minni að léttast til þess að líta betur út og fara að einbeita mér að því:
- Að ég verði heilbrigðari manneskja. Ef ég einbeiti mér að verða heilbrigðari þá kemur allt annað að sjálfu sér.
- Að læra að elska og bera virðingu fyrir umbúðunum sem mér voru úthlutaðar.
- Að lifa lengur svo ég geti tekið þátt í lífi barnanna minna og barnabarna á annan hátt en ég myndi gera feitur, sveittur, þreyttur eða dauður!!!
- Að kalla fram augnaráð hjá konunni minni sem segir Mig langar í það sem ég sé! í stað þess að það segi Úff, það er víst ekkert annað í boði! J
Með því að setja þetta fram á þennan hátt er ég að vinna í kjarnanum og því sem skiptir mig mestu máli. Þannig get ég, með því sem ég geri í dag, tryggt að framtíðin verða að þeim veruleika sem ég kýs því lífið er eins og búmerang. Allt það sem ég kasta út í lífið í dag mun koma til mín aftur í framtíðinni. Kannski í öðru birtngarformi og líka þegar ég á síst von á því. Með því að láta gott af mér leiða í dag veit ég að það muni skila sér í góðu einhverntíman, það skiptir ekki máli hvenær. Það sem skiptir máli er að vera búinn að sá fræjum sem einhverntíman í framtíðinni koma til með að blómstra.
Ég er fullviss að þau tækifæri sem felast í framtíðinni verði bæði fleiri, stærri og meira spennandi en ég get gert mér í hugalund í dag. Það eina sem ég get gert þangað til er að gera eins vel og ég get í þeim verkefnum sem fyrir mér liggja þangað til þannig að þegar stóra tækifærið bankar uppá verði ég undir það búinn.
Þangað til - Kveðja frá Esbjerg - IJVinir og fjölskylda | 1.7.2008 | 18:54 (breytt kl. 19:09) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)