Nú er tekið að harðna í ári hjá okkur hér útí Danmörku. Við erum nú heppin með það að vera í litlu bankaútibúi þar sem þjónustan er bæði góð og persónuleg því allt okkar fé er allt í bankanum heima og ekki nokkur leið að koma krónu hingað út .
Til að bjarga okkur næstu vikurnar fórum við í bankann og fengum yfirdrátt án nokkurra vandamála þangað til leyst verður úr þessari flækju. En sömu sögu er ekki hægt að segja um alla hérna úti. Ég var að tala við vinkonu mína sem er í svipuðum sporum nema hvað að dagsskipunin hjá hennar banka var að íslendinga og allt sem íslenskt er á ekki að aðstoða eða lána fé og þannig er það víst hjá fleiri bönkum hef ég heyrt.
Þetta er vont mál. Það er búið að loka á debetkortin okkar og vísakortin þannig að ef þú ert ekki með haldbært fé þá ert þú bara upp á guð og götuna komin. Ég vona innilega að þetta fari nú að leysast.
Við erum í góðum málum og ekki þarf að hafa áhyggjur af okkur. Vetrarfríið er í gangi og ég er bara heima að læra. Sigrún fær hinsvegar ekkert frí í sínum skóla þannig að við ákváðum að fara ekkert í vikunni eins og upphaflega hafði verið planað.
Við ætlum þó að fara barnlaus niður til Kaupmannahafnar um helgina og vera 2 nætur á hóteli í sovna "Horny-moon". Helena vinkona okkar ætlat að vera hérna hjá okkur og hugsa um krakkana. Ég hlakka ekkert smá mikið til. Á laugardaginn ætlum við á Bubba-tónleika og svo ætlum við bara að vappa um borgina og skoða betlandi íslendinga á götuhornum ...
Af daglega lífinu er það helst að frétta að við erum búin að vera í meira lagi þjóðleg síðustu tvær vikurnar. Við erum búin að baka rúgbrauð, steikja kleinur og nú síðast var búin til ekta íslensk kæfa til að hafa með rúgbrauðinu. Svona er þetta þegar maður er "bara" í skóla og hefur nægan tíma til að stússast í eldhúsinu.
Vonandi fer ástandið að batna heima á Íslandi. Við erum búin að taka þá ákvörðun að koma (kannski) heim eftir 3 ár, sumarið 2012. Ég sé ekki að maður hafi nokkuð að gera þangað fyrr ...
Ég henti inn nokkrum myndum af okkur síðustu vikurnar.
Kveðja frá Esbjerg!! - IJ
Flokkur: Vinir og fjölskylda | 14.10.2008 | 15:40 | Facebook
Athugasemdir
ja hèrna .. ekki er öll vitleysan eins segi èg bara .. annars gòda ferd ì horney-moon ;+
klem Brynja...
Brynja (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 21:56
Satt best að segja erum við heppin í allri ólukkunni að hafa ekki átt nógu mikinn pening til að taka þátt í þessu hlutabréfa flóði. En það er satt hjá þér, kæri frændi, að ástandið er slæmt mál og vonandi að það það leysist fljótt. Gangi þér vel í baráttunni við bankana þarna úti.
Ingunn frænka (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 22:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.