Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Að yfirgefa ísland er bezt í heimi!

Komið ykkur burt af skerinu lengri eða skemmri tíma og njótið þess að upplifa, læra og njóta annara lífsgilda en þeirra sem eru orðin samfélagslega viðurkennd sem NORM heima á íslandi.

"Ísland best í heimi" er ekkert annað en hrokafullur auglýsingafrasi sem er lýsandi fyrir geðveikina og neysluhyggjuna sem hefur náð að hlekkja allt of marga í gersamlega gerilsnauðum farvegi eigin lífs. Ég þekki það vel af eigin raun því ég var fastur í honum sjálfur allt of lengi.

DSC03241

Það að flytja til annars lands, í aðra menningu, á annan stað þar sem ríkja önnur gildi og önnur viðhorf en maður er vanur eru þröskuldur sem margir eiga erfitt með að yfirstíga. Það þarf að mörgu að hyggja og ég tala nú ekki um þegar um heila fjölskyldu er að ræða. Hvað með börnin. Er maður tilbúinn að rífa þau upp með rótum og setja þau í aðstæður þar sem þau eru mállaus og óörygginu umvafin. Þó svo að búið sé að taka ákvörðunina um að flytja þá er ekki þar með sagt að búið sé að fá svör við öllum þeim spurningum sem upp koma í ferlinu frá því að hugmyndin kviknar og þangað til lagt er í hann.

Ég er þeirrar skoðunar að í kringumstæðum sem þessum þá gildi lögmál speglunar og hið fræga "Law of attraction".Fari maður af stað með fyrirfram ákveðnar skoðanir um hvernig hlutirnir munu þróast er nokkuð víst að þeir geri nákvæmlega það. Ef þú óttast að þetta verði erfitt, leiðinlegt og þungbært er nokkuð víst að svo verði . Ef þú hins vegar ferð af stað með þær væntingar og vonir að ferðalagið framundan verði spennandi, skemmtilegt, lærdómsríkt og fullt af tækifærum þá MUNTU mæta þeim örlögum og uppskera því sem þú sáir og það ríkulega. Ég flutti hingað til Esbjerg með því hugarfari og viti menn.

Á þeim fimm vikum sem ég hef búið hér er ég búinn að upplifa frábæra hluti, kynnast yndislegu fólki og hver dagur er upphaf nýs ævintýris. Samt er betri helmingurinn minn ennþá á íslandi!! Hvernig verður þetta þegar hann kemur hingað út?? :-) Það verður að fylgja sögunni að ég er enn að leita logandi ljósi að íbúð fyrir fjölskylduna svo hún geti flutt til mín því þau eru ennþá á íslandi. Í dag er ég nr. 26 á biðlista (var númer 74 í lok ágúst) þannig að þangað til verð ég að vera duglegur að fljúga heim og Skyp´a þau á hverju kvöldi.

Esbjerg er 86.000 mann bær og mér hefur verið sagt að hér búi um 100 íslendingar. Flestir eru hér í námi og nú er svo að hér hefur nú myndast lítið íslendingasamfélag sem er að mörgu leyti hægt að líkja við lítið þorp út á landi. Fyrir skömmu fóru stelpurnar saman á "kellingadjamm", næstu helgi er "fjölskylduhittingur" í Fun World og helgina þar á eftir er "Kallakvöld" þar sem keppt verður í Gokart og djamm og djús á eftir. Þannig má áfam telja.

Ég held að það sé mun meiri samgangur á milli íslendinganna hér í Danmörku en þykir eðlilegt og ásættanlegt hjá "venjulegri" fjölskyldu á íslandi. Íslendingarnir hér ná á stuttum tíma að aðlagast tíðarandanum og þeirri lífssýn baunans að það er miklu mun heilbrigðara að "hygge sig" aðeins meira og oftar heldur en að bæta við 5 tommum af sjónvarpi á raðgreiðslum í þeirri von að auka samheldni famelíunnar fyrir framan imbann!!! :-) 

Ps. Meðfylgjandi mynd var tekin í skógarferðinni okkar í dag. Á hverjum sunnudegi hittumst við nokkrar fjölskyldur og förum í göngutúr, njótum samverunnar og borðum síðan Brunch á eftir.

Gott í bili - Kveðja frá Esbjerg - IJ


Til hvers að vera í góðu skapi þegar maður getur verið í fýlu?

... og svo sagði hann; "gefðu þér tíma á hverjum degi til að vera þakklátur fyrir það sem þú hefur, fyrir augun, því án þeirra myndir þú ekki sjá fegurðina sem umlykur þig á hverjum degi, fyrir eyrun, því án þeirra myndir þú ekki ..." og svona hélt hann áfram!

Það eru mörg ár síðan ég hlustaði á þennan fyrirlestur en mér finnst alltaf gott að rifja upp þessan einfalda boðskap. Það er svo einfalt að týna sér í ææ´um, óó´um og aumingja ég´um þegar maður hefur það miklu mun betra en svo ofboðslega margir sem ekki ganga um með tárin í augunum yfir eigin vesöld.

Lífið er yndislegt alveg sama hvernig á það er litið! Þegar aumingjaskapurinn, sjálfsvorkunin og aðrir sjálfsskapaðir brestir knýja á dyr hversdagsins finnst mér ágætt að minna mig á að staða mín í dag er ekkert annað en samanlagðar afleiðingar þeirra ákvarðanna sem ég hef tekið hingað til. Þannig hlýtur að vera einfalt að draga þá ályktun að ef mig langar virkilega til að hafa hlutina einhvernvegin öðruvísi eða betri þá er eina leiðin að taka aðrar, betri og ígrundaðri ákvarðanir.

Góður maður hélt því einu sinni fram að besta skilgreiningin sem hann hefði heyrt á geðveiki væri sú að gera sömu hlutina alltaf eins í þeirri von að það kæmi til með að skila annari útkomu.

Nokkuð til í því!!!

Úr því að ég er dottinn í þessar hugleiðingar þá verð ég að fá að benda á frábæra bók sem vinur minn og félagi var að senda frá sér; "Þú ert það sem þú hugsar" eftir Guðjón Bergmann. Hann er búinn að vera með námskeið undir sama heiti núna í tæp 2 ár sem allir ættu að fara á sem ekki vilja "missa af" eigin lífi.

Mæli með því að gefa þessa bók í jólagjöf til þeirra sem ykkur þykir vænt um!

Gott í bili - Kveðja frá DK - Ingvar


Ég og Maggi Bess

Nú er skólinn farinn á fullt og ég er gersamlega að missa mig yfir því hvað þetta er spennandi allt saman. Einhvernvegin finnst mér þegar ég hugsa til baka að mér hafi ekki fundist þetta svona æðislegt þegar ég var í námi síðast!!! Hmmm??? Maggi alltaf flottur!!!

International Marketing, Global Economy, Organizational Behavior, Business Law og China  eru meðal þeirra faga sem ég er í þessa dagana og mér finnst þau öll frekar frábær! Það eru mikil viðbrigði að vera aftur kominn í þá stöðu að fá að setjast á skólabekk og læra, 20 árum seinna.

Eitthvað rámar mig nú samt í  að hafa lært í þjóðhagfræði á sínum tíma en aðallega fyrir þær sakir að mér fannst það ekki siðferðislega réttlætanlegt á sínum tíma að troða þessu inn í minn þykka haus.

Ég hefði ekki trúað því hvað það er gaman að vera farinn á stað aftur í námi og í þetta skipti þarf engan til að reka á eftir mér með heimalærdóminn. Nú er ég sjálfur orðinn eins og tveir skólafélagar sem ég þoldi ekki í gamla daga, alltaf heima að læra og með sitt á hreinu! Sama get ég sagt um mig og Magga Bess. Við byrjuðum saman að lyfta lóðum hjá Júlla Bess, pabba hans, í kjallaranum í gamla íþróttahúsinu í Hafnarfirði. Svo tók ég mér 20 ára pásu en hann hélt áfram.

Helv. óheppni að hafa ekki haldið áfram að lyfta. Þess í stað þjáist ég af krónísku brjóstkassasigi á háu stigi og björgunarhringurinn sem ég ber um mig miðjan mætti vel nota til að halda lítilli trillu á floti með áhöfn og allez!!!

Það horfir þó til betri vegar því að ég vakna nú kl. 6:17 á hverjum morgni, lem á vekjaraklukkuna og segi LOKSINS! Hjóla svo 10 km. í ræktina (og legg mig aftur á bekknum í búningsherberginu) :-) púla þar í ca. 3 korter með Atla Þór bekkjarbróður mínum hérna úti og svo mætum við ferskir í skólann 8:15. Þetta er ekkert smá frábært. En það sem er samt best við þetta allt saman að ég er búinn að panta mér flug heim til íslands í næstu viku og kem til með að komast í réttirnar með ástinni minni og börnunum. Kæri Guð! Ég veit ekki hvað ég gerði til að verðskulda alla þessa gæfu en ef þú gefur mér smá hint þá skal ég gera miklu meira af því í framtíðinni!!!Gott í bili!!!Kveðja frá Esbjerg - IJ

Mesti vitleysingurinn var ég sjálfur!

Ég datt inn í viðtal í síðustu viku þar sem Dr. Phil var að tala við Jamie Lee Curtis. Þar var hún að útskýra hvaða áhrif það hafi haft á líf sitt þegar hún opnaði augun fyrir mætti þess að skipta út orðinu „þarf“ fyrir orðin „fæ að“ eða „ég get“. Þó að þetta kunni í fyrstu að hljóma einfalt og allt að því naívt þá leynast í þessum orðaskiptum ótrúlegur kraftur og sannleikur.

Sem dæmi nefndi hún að allt of margir tala um  að þeir „þurfi“ að fara í vinnu þegar þeir ættu að þakka fyrir að „fá að“ fara í vinnu eða „ég get“ farið í vinnu. Fleiri tala um að þeir „þyrftu að“ fara í ræktina á meðan samviskan biður um að „fá að“ fara o.s.frv.

Mér fannst þetta frábært viðtal og talaði um það við ástina mína hvað við værum oft vanþakklát fyrir það sem við ættum, tækifærunum sem við hefðum og öllu því sem við gætum gert.

Það liggur líka við að ég skammist mín þegar ég hugsa til þess  hversu oft ég hef „þurft“ að koma börnunum mínum í rúmið. Ég hef nú verið frá þeim í eina viku og væri sko til í að gefa gott betur en eitt rif til að „fá að“ koma þeim í ró og undirbúa þau undir svefninn. Ég sé það núna úr fjarska eftir að hafa flutt hingað út að ég hefði alveg mátt  staldra oftar við og njóta þess sem ég hafði þó ég hafi ekki alltaf þurft þess!?

Ég stóð mig líka að þeirri hugsun í gær að ég „þyrfti“ að vera í bekk með kínverjum, tyrkjum, afríkubúum og ótal öðrum vitleysingum þegar ég áttaði mig á því að mesti vitleysingurinn kom frá íslandi. Það var ég sjálfur!

Þvílík forréttindi að „fá að“ læra alþjóða markaðsfræði í bekk sem samanstendur af svo fjölbreyttum hóp frá 12 mismunandi þjóðlöndum með svo ólíkan bakgrunn. Og vá hvað það munaði litlu að ég léti sjálfhverfu mína, fordóma og þröngsýni eyðileggja fyrir mér tækifærin til að kynnast þessu fólki af auðmýkt í stað þess að þykjast á einhvern hátt yfir það hafinn.

Jæja, ég þarf að fara að sofa eða ætti ég ekki frekar að segja; „Nú get ég farið að sofa!“ Aumingja þeir sem fá ekki nægan svefn ... :o)

Gott í bili!

Kv. IJ


Vindsæng og vikuskammtur af klósettpappír

Dagur 7 í Esbjerg. Ég er loksins búinn að finna kaffihús þar sem hægt er að tengjast netinu þannig að héðan í frá ætti ég að geta sent fréttir oftar en aldrei.

Við komum hingað seint sl. miðvikudag ég og Sigrún mín sem ætlaði að hjálpa mér að koma mér fyrir. Fyrstu nóttina gistum við í Billund og keyrðum svo sem leið lá til Esbjerg á fimmtudagsmorguninn. Byrjuðum á því að ná í lyklana af íbúðinni því við vorum spennt að sjá hvar og hvernig ég myndi búa.

Það voru blendnar tilfinningar sem léku um hugann þegar við opnuðum dyrnar af rottuholunni sem ég var búinn að leigja mér. Herbergi upp á þriðju hæð, allt undir súð og þegar ég segji undir súð þá meina ég algerlega undir súð. Þetta voru mikil vonbrigði. Og til að bæta gráu ofan á svart þá er grískur veitingastaður í húsinu við hliðina og matarlyktin í húsinu bæði stöðug og óbærilega megn.

Ég fór með det samme og kvartaði undan rottuholunni og sagðist vilja aðra íbúð. Og til að gera langa sögu stutta þá fékk ég góða stúdíóíbúð 9,2 km. frá skólanum sem er talsvert lengra en góðu hófi gegnir. Er ef litið er á björtu hliðarnar þá ætti ég að ná að brenna talsverðu af lýsi við það að hjóla 18,4 km á dag í og úr skólanum, og ekki veitir af!

En nýju íbúðina fæ ég ekki fyrr en 1. sept. þannig að þangað til sem ég á vindsæng í rottuholunni og borða úti þrisvar á dag. Ekki það að ég eigi svona mikið af peningum heldur fæ ég ekki búslóðina  fyrr en ég flyt í nýju íbúðina. Þangað til bý ég ekki við veraldleg gæði eins og hnífapör, glös o.s.frv.

En ekki er ég að kvarta því að ég hef föt til skiptanna, fína vindsæng og vikuskammt af klósettpappír og núna aðgang af nettengingu!!!!

Gott í bili ... IJ


Þá er komið að því!!!

Á þessari síðu kem ég til með að halda dagbók fyrir þá sem vilja fylgjast með mér og mínum daglegu hugrenningum um lífið og tilveruna. Eins og flestir vita sem rata á þessa síðu er ég að halda á vit örlaga minna til Danmerkur að læra alþjóða markaðsfræði, fjarri fjölskyldu og vinum.

Hugmyndin var að byrja í náminu þar ytra þann 1. ágúst. Þá ætlaði ég að taka mánaðar undirbúning í stærðfræði. Í morgun var ég svo heppinn að komast í sambærilegt nám hjá endurmenntun HÍ og til vonar og vara fékk ég mér líka kennara til að undirbúa mig fyrir undirbúninginn svo ég verði nú örugglega klár. Nú er ég að undirbúa mig fyrir þann undirbúning ...

Flott í bili!!! - IJ


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband