Hálfgerð helvítis martröð ...

Sá sem finnur til þakklætis í lífinu getur jafnframt notið þess.

Þegar maður er svona mikið einn eins og ég er þessa dagana rekur hugann oft að ýmsu sem ég gef mér oft ekki nægan tíma til að huga að. Það er þakklæti. Þakklæti fyrir allt það sem ég hef, fyrir alla sem ég hef kynnst í gegnum tíðina, öll þau ævintýri sem ég hef lent í og þannig gæti ég haldið endalaust áfram og farið í rúmið grátbólgin yfir því hvað þetta sé nú æðislegt alltsaman.

Ég varð fyrir því ótrúlega láni fyrir u.þ.b. sex árum að veikjast alvarlega, svo alvarlega að um tíma þótti víst líklegra en hitt að ég myndi ekki hafa það af. Á sjö mánaða tímabili var ég lagður yfir tuttugu sinnum inn á spítala, lifði lengi á morfíni í æð (sem var frábært þangað til að það þurfti að venja mig af því) og um tveggja mánaða tímabil mátti engin heimsækja mig nema að vera í slopp og stígvélum vegna einhvers vírus sem ég var með í sýktum 20 cm opnum skurð á maganum sem vildi ekki gróa. Því var ég hafður í einangrun svo ég myndi ekki smita aðra á stofunni.

Á þessum tíma þurfti ég líka að vera með stómapoka í fjóra mánuði á meðan innyflin á mér voru að gróa saman og til að gera mjög langa og dramatíska sögu stutta þá var þetta hálfgerð helvítis martröð á meðan á því stóð.

Ég hef ekki mikið viljað ræða þetta hingað til. En þegar ég lít tilbaka þá sé ég hvað þessi upplifun hefur haft mikil og jákvæð áhrif á mig á marga vegu. Ég gleymi því aldrei á meðan ég lá í einangruninni, með slöngur og nálar í mér út um allt, þegar ég horfði út á bílastæðið á Borgarspítalanum og fylgdist með fólkinu sem var að koma í vinnuna. Vá hvað ég öfundaði það rosalega! Ég sá það samt oft á fólkinu að því var alls ekki skemmt yfir því að vera að fara að vinna en ég hugsaði með mér að það serði sér enga grein fyrir því hvað það hefði það gott.

Ég var samt ótrúlega heppinn. Ég, eins og Hemmi Gunn, fékk annan séns. Annað tækifæri til þess að láta drauma mína rætast. Þessvegna segi ég að það hafi verið mikil gæfa fyrir mig að lenda í þessum veikindum og sigrast á þeim.

Þó að ég tali um að ég hafi sigrast á veikindunum þá er það ekki nema hálfur sannleikurinn. Á bak við mig stóðu eins og klettar þeir sem stóðu og standa mér næst, foreldrar mínir, konan mín, vinirnir og aumingja börnin. Mér finnst ég aldrei hafi þakkað þeim það að fullu. Ef að þið lesið þetta þá langar mig til að segja ykkur það að án ykkar efast ég um að ég hefði komist heill í gegnum þetta allt saman. Ég er viss um að þetta hefur tekið jafnmikið eða meira á ykkur eins og á mig.

Það sem færri vita er að í miðjum veikindunum, nánar tiltekið daginn áður en að ég fór í stóra aðgerð til að losna við stómapokann, þá átti ég fyrsta stefnumótið við konuna mína sem hangir ennþá með mér í dag, hana Sigrúnu. Annað stefnumótið okkar var á gjörgæslunni eftir aðgerðina þar sem ég fékk líka fyrsta kossinn. Svo heimsótti hún mig á spítalann á hverjum degi þangað til að ég útskrifaðist endalega sem mig minnir að hafi verið um miðja mars 2002. Þetta sýnir úr hverju hún er gerð og af hverju ég elska hana svona mikið. Hún hlýtur líka að hafa séð eitthvað í mér finnst hún gafst ekki upp á mér á þessum tíma ... InLove 

Ég er fullkomlega heilbrigður í dag. Ég hef ekki tekið eina einustu pillu síðan vorið 2002. Ég á fjögur frábær börn, yndislega konu, frábæra fjölskyldu, góða vini, ég er í skemmtilegu námi, ég er búinn að léttast um 12 kíló síðan í sumar, ég er að fara að fá fjölskylduna mína hingað út, vá hvað þetta er geggjað!!!!

Ég held að ég hafi aldrei verið eins þakklátur og hamingjusamur eins og í dag. Það er ekki vegna þess að ég sé svona heppinn heldur vegna þess að ég hef upplifað að eigin raun að lífið er of stutt og óútreiknanlegt til að kvarta, kveina og kenna öðrum um. Ég er minn eiginn gæfu smiður og einblíni á að sjá það góða í fólki og aðstæðum og finn það undantekningalítið og tek það með mér í gegnum daginn. Maður finnur alltaf það sem maður leitar að.Við erum öll 90% kostir og 10% gallar. 

 Ég reyni líka eftir fremsta megni að forðast neikvætt fólk, svartsýnissauði og grenjuskjóður sem sjá djöfla í hverju horni. Fólk sem nærist á óhamingju annara og er stöðugt veltandi sér upp úr vandamálum og harmsögum frá öðrum grenjuskjóðum, nöldurseggjum og ógæfugrísum.

 Maður finnur alltaf það sem maður leitar að!

Ps!
Ég setti inn lag á síðuna sem ég vil að verði spilað í jarðaförinni minni. Ekki það að ég sé að fara neitt. Ég hef ætlað að koma þessu til skila í langan tíma en hef ekki látið verða að því. Nú er það komið til skila. (Ekkert liggur á lag 13) Mér finnst lagið og textinn eiga vel við;

Ég hef séð þetta allt - og ég segi að þú skalt - Í upphafi kanna hvað er að - Því er hafinn er ferð - og að lokum eins þú sérð - að þú endar á sama stað!

Það verðu líka minn síðasti séns til að syngja fyrir (vonandi) fullu húsi!!! Whistling

Kveðja frá Esbjerg - IJ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr, heyr gamli vinur... finnst FRÀBÆRT  ad fylgjast med tèr  og hlakkar til ad fà tækifæri til ad hitta alla litlu fjölskylduna tìna. Med bestu kvedju frà mèr og minni litlu fjölskyldu..

p.s heimurinn væri fàtækari àn tìn

Brynja (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 17:40

2 identicon

Sæll vinur minn.  Gaman að heyra að þú ert kátur í henni Danmörku.  Af klettinum Heimaey er allt gott að frétta og ég er núna að gera mig klárann að fara á jólahlaðborð í Höllinni, nammi nammi nammi namm.  Það er ekki hægt að segja annað en að ég sé mjög jákvæður yfir því!

Haltu áfram að vera brattur og við sjáumst svo bráðlega.  Hilsen.

Heiðar (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband