Sólin er að kalla á mig ...

... en ég læt sem ég sjái hana ekki.2bigstockphoto_Happy_Sun_103457

Sumarið er skollið á okkur af fullum þunga. Það er búið að vera heiðskírt hjá okkur meira og minna´í 2 vikur. Hitinn hefur verið að stíga hægt og rólega og er núna að komast í 25° yfir miðjan daginn. Og svona er spáin líka. Sól, sól og sól næstu 2 vikurnar ... Police

Þetta er frábært fyrir þá sem eru í þessum pakkanum, að sóla sig og njóta lífsins, eins og Sigrún mín. Hún er orðin kaffibrún þessi elska enda er hún komin með það inn í rútínuna hjá sér að leggjast í sólbað þegar hún er búin með morgunskokkið í skóginum, eftir að hún fer með krakkana í skólann. NÆS!!! Cool

Ég bíð spenntur eftir að klára próflesturinn. Nú er hann að skella á af fullum þunga. Ég er að fara í 6 tíma próf á morgun og er búinn að vera INNI að lesa síðustu daga að undanskildum einum degi sem ég fór niður á strönd að lesa. Tók Ásbjörn og Anton með og þeir voru á sundskýlum að busla í sjónum. Hann er reyndar ekki orðinn alveg nægjanlega heitur ennþá til að synda í.

Ég fer í síðasta prófið 10. júní og eftir það er það bara Sunshine Raggiee!!!!!!

Sólarkveðjur frá Esbjerg - IJ


Hvað liggur á?

Það kemur reglulega upp sú skynvilla hjá mér að ég þurfi nú að fara að drífa mig í að fara að gera eitthvað við lífið. Ég er að detta í fertugt og ekki ennþá búinn að ákveða hvað ég ætli að verða þegar ég verð stór.

En hvað liggur á? Hvað skiptir máli? Hvað er málið? Hvaða rugl er í gangi?

Sem betur fer er ég farinn að sjá ruglið í þessum hugsunarhætti. Ég hef aldrei haft það svona gott. Ég hef aldrei haft svona mikinn tíma fyrir mína nánustu. Við eigum ekki neitt Crying, en á móti þá skuldum við ekki neitt Grin. Miðað við ástandið heima núna þá eru það víst forréttindi sem vert er að þakka fyrir.

Þó það sé erfitt að segja til um hvað framtíðin beri í skauti sér þá tel ég samt sem áður víst að við verðum hérna úti í einhver ár í viðbót. Daninn með sínum frábæra sósjal gerir okkur kleyft að lifa sómasamlegu lífi á meðan ég er í námi. Frípláss fyrir börnin í leikskóla, háar húsaleigubætur á lága húsaleigu og þar fram eftir götunum. Einu raunverulegu áhyggjurnar sem ég hef þessa dagana eru verkefnin sem ég er að skila í skólanum ... og ekki heldur það nú fyrir mér vöku! Smile

Fyrir ykkur "heima" á Íslandi þá er líka gaman að segja frá því að ég er í stuttbuxum í skólanum í dag, 16° hiti á mælinum í morgun. Fuglarnir í skóginum báðu mig um kveðju til ykkar þegar ég hjólaði í skólann og íkornarnir líka!!!!

Fjölskyldan biður líka að heilsa. Ég og Hjördís ætlum að kíkja á klakann um helgina. Ég er að skemmta á laugardaginn og hún ætlar að vera hjá ömmu sinnu. Ásbjörn og Sigrún ætla að hafa eitthvað fjör hjá sér, fara í Lególand og skemmta sér saman.

Kveðja frá Esbjerg!!!! IJ

 


Spaghettísósa a´la Gvario ...

spaghetti a´la GvarioÉg hef lengi verið mikill áhugmaður um mat og eldamennsku eins og á mér sést. Undecided

Eitt hef ég samt aldrei gefið mér tíma í að stúdera og það er spaghettísósa. Spaghettísósa er nefnilega ekki sama og spaghettísósa!

Hér er afraksturinn ... uppskriftin er fyrir ca. 6

ATH! Sósan þarf að malla í allavega 2 tíma, það er galdurinn!!!

1/2 kg. nautakhakk
2 laukar
5 rif hvítlaukur
2 stilkar sellerí
2 stórar gulrætur
2 dósir hakkaðir tómatar (með basiliku eða einhverju grænkryddi)
1/2 bolli tómatsósa
3 dl. vatn (skemmir ekki fyir að skvetta smá rauðvíni út í, ef þetta á að vera spari)
1 teningur af góðum kraft - Kjúklinga, lamba eða nauta, skiptir ekki öllu máli
2-3 mtsk. Sweet Chilli sósa (eða 1/2 tsk. chilli pipar og 1 mtsk. sykur)
1 tsk. paprikuduft
1 tsk. origano
1 tsk. timian, rósmarin eða eitthvað grænt og vænt
salt og pipar e. smekk

Fyrst þursteikti ég hakkið og tók það frá. Þar sem ég er með lítil börn þá steikti ég saman lauk, hvítlauk, gulrætur og sellerí þar til það var orðið meyrt og maukaði það svo með töfrasprota. Þannig losna ég við að krakkarnir borði matinn eins og fornleifafræðingar. Wink 

Svo set ég allt saman, maukið, tómatana og restina af hráefninu og leyfi þessu að malla á lágum hita í ca. 2 tíma.

Þetta er sem sagt barnaútgáfan af þessu. Frábært er að setja í þetta rauðvín til að poppa þetta upp og svo það sem er til í ískápnum, sveppi, papriku eða eitthvað annað spennandi.

Þegar búið er að sjóða og sigta spaghettíið þá mæli ég með því að henda í það smá smjörklípu eða ólífuolíu svo það klumpist ekki saman.

Svo þegar allt er komið á diskinn er bara að fullkomna þetta með rifnum parmesan og ferskri steinselju.

Þetta er dýrari týpan af sósu!!!!

Kveðja frá esbjerg - IJ


Nú fer allt að gerast aftur ...

Ásbjörn á flugiÉg er búinn að vera á kafi í verkefnavinnu í skólanum. Við fórum í Lególand í gær til að fagna skilum á stóra verkefninu mínu. Ég er búinn að setja inn helling af nýjum myndum og kem til með að skrifa annál á morgun.

Það þýðir ekkert að sitja við skrif þegar það er sól og 14 stiga hiti úti. Cool

Bless í bili - IJ


Við erum að koma "heim"!

Nú er allt að gerast. Við erum á fullu að pakka, þvo, gera og græja! Við eigum flug á fimmtudgsmorguninn en ætlum að bæta einum degi við páskafríið og leggja af stað í fyrramálið (miðvikudag).

Við keyrum til Köben í fyrramálið og förum í Dýragarðinn með krakkana. Svo gistum við annað kvöld hjá vinafólki og komum svo "heim".

Á sunnudaginn er svo komið að Jóhanni mínum að ganga í fullorðinna manna tölu og játast Kristni. Veislan verður uppi í bústað hjá mömmu og pabba og við búumst við ríflega 80 manns í veislu. Svo verðum við á íslandi til 29. mars þannig að við ættum að hafa tíma til að hitta vini og kunningja á þeim tíma.

Hlakka til að sjá sem flesta!!!!!!!! - Kveðja frá Esbjerg - IJ


Það er hægt að vera blankur og hamingjusamur!

happiness Það má nú segja að margt hafi breyst á stuttum tíma. Nú er komin smá reynsla á það að vera námsmaður í útlöndum með fjölskyldu á framfæri.

Það eru talsverð viðbrigði að fá ekki útborgað um mánaðamót eins og alltaf og þurfa allt í einu að hugsa sig tvisvar um áður en maður kaupir sér eitthvað.Langur vegur frá því að ég sé að kvarta um einhver blankheit og volæði. Þvert á móti. Það er frábært að vera í þeirri aðstöðu að þurfa að draga saman seglin og nýta það sem er til. Ég er farinn að nota alla hálffullu rakspírana mína, gömlu skyrturnar eru að öðlast nýtt líf og svo mætti lengi telja.

Það dýrmætasta í þessu öllur er að við erum að finna aftur það sem skiptir okkur mestu máli sem fjölskylda. Það er ekki aðkeypt afþreying sem gefur mest. Það eru þær stundir sem við verjum saman með krökkunum, í göngutúrum, bíltúrum og á leikvellinum. Það er ekkert að því að fara í bíó, sund, bowling, tívolí og Lególand endrum og eins, Það skilur hins vegar ekkert meira eftir sig þegar upp er staðið.

Ég er búinn að prufa það að vera hátekjumaður og eiga næga peninga um hver mánaðamót. Nú er ég námsmaður og á andkotann enga peninga í afgang. Ef ég ætti að bera saman þetta tvennt þá er engin spurning um hvort ég kjósi frekar. Þegar ég átti pening "átti" ég líka talsvert af leikföngum á afborgunum. Skuldbindingarnar voru margar og neyslan mikil. Þetta var góður tími en ekki eins innihaldsríkur og margur myndi ætla.

Það er margt undarlegt í gangi í henni veröld. Í dag "á" ég nánast engin leikföng en skemmti mér samt betur. Ég get ekki "keypt" eins mikið handa börnunum mínum og áður en er miklu nánara sambandi við þau. Ég "vinn" mun minna en er samt mun hamingjusamari. Við hjónaleysurnar höfum ekki mikla peninga á milli handana en rífumst mun sjaldnar, nánast aldrei … :o)

Ég held að ég sé að upplifa sönnun þess að hamingjuna er ekki að finna í veskinu heldur hjartanu. Það líður eflaust ekki sá dagur að þessi fróðleikur hljómi í eyrum okkar allra. Munurinn er bara sá að upplifa þennan boðskap í framkvæmd er annað en heyra hann frá öðrum eða að lesa hann í bók. Mér finnst ótrúleg verðmæti og forréttindi liggja í því að hafa fengið að spóla til baka fara í skóla aftur og fá að bremsa mig af í yfirborðskenndri, aðkeyptri veraldlegri funllnægju.

Þetta minnir mig á kvæði sem ég lærði í æsku og hefur nú öðlast nýtt líf hjá mér, ”Það er leikur að læra, leikur sá er mér kær. Að læra meira og meira, meira í dag en í gær!!! Ha, ha!

Það er hægt að vera blankur og hamingjusamur!

Kveðja frá Esbjerg - IJ 


Langt síðan síðast ...

Það hefur margt gengið á síðan ég bloggaði síðast. Mamma kom í heimsókn og var hjá okkur í nokkra daga. Kalli bróðir kom síðustu helgi og átti með okkur frábærar stundir. Svo kom Nils systursonur minn kom sömu helgi og fór með okkur niður til Þýskalands.

Í síðustu viku byrjuðu krakkarnir á leikskólanum. Við vorum svo heppin að fá inni í leikskóla sem er u.þ.b. 100 metra frá húsinu okkar. Hjördís lagðist þó í flensu daginn eftir að hún byrjaði og náði að draga báða foreldra sína með sér í rúmið. Svo skiptumst við á með veikum mætti við að reyna að sinna börnunum á milli klósettferða og verð ég víst að viðurkenna að Sigrún stóð sig mun betur í því en ég. (Enda er það nú löngu sannað að karmenn verða mun veikari en konur þegar á reynir)

Ásbjörn er frekar óöruggur enn sem komið er á leikskólanum. Hann er nú samt kátur með það að það eru tveir íslenskir jafnaldrar hans með honum á deildinni í leikskólanum. Ásbjörn á hjólinuAf honum er samt það að frétta að hann er búinn að læra að hjóla. Afi hans á Grafarbakka gaf honum hjól og það skipti engum togum að þegar hann settist á það í fyrsta skiptið hjólaði hann bara af stað, án hjálparadekkja og allt. Myndin hér að ofan var tekinn áður en hann settist á það í fyrsta skiptið. Hann vill koma hér á framfæri kossum og knúsum til afa síns.

Nú bíðum við bara eftir sumrinu sem er rétt handan við hornið. Konan er eitthvað að kvarta yfir því að hér rigni stundum en ég segi henni þá bara að því meira sem rignir í dag því betur kunnum við að meta sólina þegar hún sýnir sig á endanum.

Meira á sunnudaginn - Verða að klára að læra! - IJ


Iceland Depressed - Nóttin langa á Kastrup

Já það má segja að þessi nótt sé búin að vera í lengra lagi, enda morguninn rétt handan við hornið. Forsaga málsins er líka skondin.

Ég er á leiðinni til íslands til að veislustjórast og ákvað að fara degi fyrr heim og á ráðstefnu á Hilton hótelinu um markaðssetningu á netinu. Í gær var strax ljóst að vélinni myndi seinka eilítið þannig að ég sat bara í hægðum mínum heima þegar ósköpin dundu yfir.

SMS frá Iceland Express þess efnis að búið væri að sameina tvær vélar í eina og bröttför væri skv. áætlun kl. 20:30. En þar sem búið var að tilkynna seinkun áður þá var engin leið fyrir mig að ná lest til Kaupmannahafnar í tíma. Eftir smá skraf og ráðagerðir með konunni ég ákvað að bruna á bílnum og skilja fjölskynduna eftir bíllausa á meðan ég er á klakanum. Ég rétt náði að smella kossi á konuna og börnin og rauk illa gyrtur og ótilhafður út í bíl. Svo reiknaði ég út að ef ég héldi 140 km. meðalhraða, pissaði í gosflösku og sleppti því borða á leiðinni þá myndi ég ná í tæka tíð ....

En síðan eru liðin mörg ár, eins og segir í laginu. Núna, ellefu tímum síðar (klukkan að verða 05:30)bólar ekkert á vélinni frá íslandi. Farþegarnir með Icelandair kvöddu okkur með glotti rétt fyrir kl. 01:00 og var það önnur vélin sem fór frá þeim héðan í dag og eru þeir farþegar eflaust komnir heim og undir sæng.

En þetta er nú samt búið að vera skemmtileg nótt. Að vera strandaglópur á svona flottri flugstöð er frábært. Af öllum flugstöðvum sem ég hef komið í þá er ég nokkuð viss um að Kastrup sú besta til að eyða nótt til ráfs og rölts. Ég var nú líka svo heppinn að hitta góðan vin hérna, Bergsvein nokkurn bakara, en hann hafði vit á að fara með Icelandair. Ég virðist hins vegar ekki vera að fara neitt ... Frown Svo hitti ég líka gamlan hestaferðafélaga frá skagafirði og félaga hans en þeir fóru á pöbbaröllt niður í Köben og eru komnir aftur hingaðút á flugvöll, VEL við skál og syngja, skagfirðingar ... o.s.frv.

En þó mætti vélin nú alveg fara að koma því skv. mínum útreikningum þá fer að líða að því að ég missi af ráðstefnunni sem byrjar kl. 9 á staðartíma.

Nú er búið að opna veitingastaðina og ég ætla að fá mér morgunkaffi.

Stuðkveðjur frá Kastrup - IJ - Sleeping

 Ps. Það var að koma SMS frá Iceland Depressed (06:00), vélin er farin í loftið frá Íslandi. Áætluð brottför rúmlega níu. Það er allt að verða vitlaust á vellinum, fólk grætur af gleði. Enda farið að óttast að sjá aldrei ættingja sína aftur.


Eins og jó-jó á milli Danmerkur og Íslands ...

Nú er fjölskyldan búin að vera saman í þrjár vikur og dagarnir eru farnir að taka á sig Prakkarinnmynd hversdagsleikans. Ekki svo að skilja að það sé ekki gott, þvert á móti. Við erum búin að taka upp úr öllum kössum og heimilið okkar er orðið hlýlegt og heimilislegt aftur, bara á öðrum stað í öðru landi.

Gestaherbergið var vígt um helgina þegar Nils systursonur minn kom og átti með okkur yndislega helgi. Hann kom reyndar ekki svo langt að því hann er að læra læknisfræði í Óðinsvéum og skrapp hingað til okkar til að passa á meðan við smelltum okkur á þorrablót íslendingafélagsins, sem var hin besta skemmtan. 

Af okkur er annars það helst að ég verð eins og jó-jó á milli Esbjerg og Íslands fram til marsloka. Eins og sumir vita þá er ein af tekjulindum mínum sú að ég stýri veislum. (Smellið á tengilinn http://1000th.is/index.php?categoryid=44&p2_articleid=154) Þar sem ég er í námi þá er þetta ágætis aukabúgrein svona um helgar þó ég þurfi um langan veg að fara. Á næstunni er ég að fara allavega 5 sinnum til íslands í þeim tilgangi.

Þá legg ég af stað á föstudegi frá brautarpallinum kl. 13:41 og er lentur í Keflavík einhverjum 10 tímum síðar. Svo flýg ég heim á sunnudögum. Þetta er frekar töff að leggja á sig 20 tíma ferðalag nánast hverja helgi en svona er þetta, sumir taka námslán, ég stýri veislum.

Ég veit ekki alveg hvað er að koma yfir hana móður mína. Hún kom með okkur hingað út 11. Janúar til að vera okkur innan handar á meðan við vorum að koma okkur fyrir og nú sagði hún mér að hún væri á leiðinni aftur næstu helgi, svona í skreppitúr, þremur vikum seinna.

Ekki svo að það sé ekki meiriháttar að fá gamla hrukkudýrið hingað út til okkar. Ohh hún er engri lík þessi elska. Svo er ég líka viss um að hún lesi þetta þanngi að ég segi það og skrifa hástöfum svo allir heyri, „elsku mamma mín, Þú ert engri lík. Þú ert ein af fáum sem hefur, í gegnum lífið, haft meiri áhuga á velferð annara en þinni eigin. Fyrir það meira en annað mun ég alltaf virða þig og elska af öllu mínu hjarta.“

Ég var að setja inn nýjar myndir sem við tókum í vikunni. Um helgina er búið að vera mikið um grímuklædd börn í nammi-leiðangrum. Þónokkrir hafa komið og sungið fyrir okkur og fengið nammi að launum. Annars komst hún Sigrún í nammipokann, þannig að það var ekki eins mikið til skiptanna fyrir aumingja börnin (ég elska´na nú samt!)

Meiri fréttir næsta sunnudag – Kveðja frá Esbjerg – Ingvar, Sigrún & co. 

Loksins, loksins ...

... er fjölskyldan komin hingað út. Þetta er búið að vera æðislegur tími. Við erum að taka upp úr síðustu kössunum og mynd er að koma á heimilið okkar.

Ég fæ ekki betur séð og fundið en að börnin kunni því afar vel að fjölskyldan sé loksins komin saman aftur. Hjördís er nú ekkert að fatta það að hún sé komin í annað land en er búin að taka pabba sinn í sátt og orðin svolítil pabbastelpa aftur. Hún var ekkert allt of sátt við að ég væri alltaf svona lengi í burtu.

Ásbjörn er hinsvegar örlítið óöruggur með alla þessa dani. Hann er nú samt nokkuð viss um að hann komi til með að ná Dönskunni fljótlega því hann sagði við afa sinn í símanum um daginn að hann skyldi kenna honum Dönsku þegar hann kemur í sumar.

Það fer að líða að því að krakkarnir komist á leikskóla því að Esbjerg er með 3ggja mánaða tryggingu á leikskólaplássi og þýðir það að þau verði komin inn fyrir 13. febrúar.

Við erum  hægt og rólega að byrja að kynnast öðrum íslendingum í hverfinu. Við buðum fjölskyldu frá Vestmannaeyjum, Ölla, Guðbjörgu og börnunum þeirra þremur í mat á sunnudagskvöldið og áttum með þeim yndislega kvöldstund.

Sigrún er að byrja á bókhaldsnámskeiði á morgun og ætlar að freista þess að fá vinnu við bókhald hérna úti. Hún er búin að vinna við það í nokkur ár og ætlar á námskeiðið til að læra fagorðin á dönsku.

Ég er búin að fá út úr jólaprófunum og gekk mér mjög vel. Svo fengum við hæstu einkunn fyrir stóra verkefnið okkar sem við skiluðum fyrir jól, enda frábærir krakkar sem ég var með í hópnum, Janní og Atli. 

Ég verð með reglulegar fréttir af okkur hérna úti og verð duglegur að láta myndir fylgja með.

Kossar og knús frá Esbjerg! - IJ


Fæ netið aftur heim í fyrsta lagi þann 17. jan ...

Oft hefur verið skrafað um það að Daninn sé bæði rólegur og ligeglad ...

Ég er nú fluttur og fór í það að flytja sjónvarpið og netið líka. Þá fékk ég þau svör hjá TDC hér í danmörku að það tæki 2-3 vikur. Það er á plani hjá þeim að flytja þjónustuna eftir 17. jan. Ég er nú ekki viss um að þessi þjónusta yrði gúdderuð á klakanum.

En allavega fyrir ykkur sem eruð að kíkja inn þá er það orsökin fyrir því að lítið er um blogg hjá mér þessa dagana.

Fjölskyldan kemur á föstudaginn, daginn eftir að ég klára prófin!

Kveðja frá Esbjerg! IJ


Hvenær er maturinn klár?

Mér finnst þessi fyrirsögn lýsa ansi vel jólaundirbúningnum hjá minni fjölskyldu. Þetta eru önnur jólin í röð sem við eigum hvergi heima. Síðustu jól stóðum við í flutningi frá Akureyri til Hafnarfjarðar og þessi jól frá Hafnarfirði til Danmerkur.

Þó að það væri ljúft að standa í jólabaslinu sjálfur fyrir sína þá get ég nú ekki kvartað yfir þeim aðstæðum sem við búum við, þó svo að við séum tæknilega séð á götunni. Við búum við þá gæfu að eiga foreldra sem keppast við, og það eru engar ýkjur, keppast við að láta okkur líða sem best.

Það er eldað og bakað og bakað og eldað í því magni að hægt væri að fæða hálfan hjálpræðisherinn. Flestar máltíðir dagsins eru lagskiptar, þ.e. tvírétta eða meira og ég hef það sterklega á tilfinningunni að þau haldi að þau komi aldrei til með að sjá okkur aftur því hver máltíð er eins og fínasta erfidrykkja. Svo veltumst við á milli eldhússins, stofunnar og svefnherbergisins með reglubundnum viðkomum í konfektskálum.

Án þess að vera að kvarta yfir þessu þá er þetta hálfgerð skelfing, alveg frá því að við vöknum á morgnana þangað til að við ropum framan í hvort annað góðri nótt ... Sick

Á því liggur enginn vafi að þetta verða yndisleg jól. Þegar þetta er skrifað (á þorlák) erum við á Flúðum hjá tengdó. Seinna í dag förum við upp í bústað til minna foreldra og svo komum við aftur hingað annan í jólum og förum svo suður aftur fyrir áramót. Áramótunum verjum við svo með yndislegu vinarfólki okkar, Ásbirni og Helgu og þeirra börnum áður en að ég flýg heim (til danmerkur) á nýársmorgun.

Samhliða próflestri mun ég leggjast í afeitrun og stunda fundi fyrir offitusjúklinga ... Grin Svo lýk ég prófum þann 10. jan. og fjölskyldan kemur út þann 11. Og þá verður kátt í höllinni ... Wizard

Til þín sem þetta lest óska ég yndislegra og gleðilegra hátíða. Ekki gleyma að njóta, ekki bara neyta ...haha!

Kveðja frá Flúðum! IJ


Hrein föt en haugskítug sál ...

Ég er kominn í jólfrí!!! Whistling  Og svo á ég líka afmæli í dag!!! Wizard 

Þá er komið að því að fara að pakka niður og flytja. Það er nú ekki mikil vinna hjá mér að pakka því sem ég er með hérna úti. Við erum kanski að tala um einhverja klukkutíma. Það er eitthvað annað en heljamennið heima á íslandi. Konan mín er búin að vera í því að pakka búslóðinni heima síðan í nóvember. Svona var þetta líka þegar við fluttum frá Akureyri um síðustu jól. Önnur jólin í röð sem við búum í pappakössum. Úff! Aumingja konan mín. Ég er að hugsa um að afþakka öll jólakort um þessi jól og bið ykkur að senda konunni minni samúðarkort í staðinCrying.

Ég ætla að fljúga heim á sunudaginn og koma dótinu okkar í gám. Svo kem ég aftur hingað út þann 1. janúar til að taka á móti gámnum og losa hann. Svo fer ég í próf þann 10. jan. og svo kemur fjölkyldan daginn eftir til að vera. Svo erum við svo sófistikeruð að við fluttum með okkur gardínusaumara út sem verður hjá okkur í viku á meðan við erum að koma okkur fyrir. Það er hún mamma gamla sem ég er að tala um. Ekkert smá frábært að fá gömlu með okkur!!! Tounge

Það er búið að vera fínt að vera hérna í Hjerting, þó að það hafi verið fulllangt stundum að hjóla í skólann. Eitt er þó sem stendur upp úr. Það er helvítis þvottaefnisþjófurinn! Ég hef lent í því í ÞRÍGANG að einhver andskotans húsmóðirin hérna í hverfinu hefur rænt af mér þvottaefninu mínu úr þvottahúsinu á meðan ég hef verið að þvo. Hverjir stela þvottaefni???

Eftir að þetta gerðist hef ég tekið eftir því að húsmæðurnar hérna í hverfinu eru ekki eins og annarstaðar. Þær eru bæði skömmustulegar og niðurlútar þegar maður kastar á þær auga. Og ég er næstum viss um að ég hafi séð horn á hausnum á einni druslunni þar sem hún stóð á náttsloppnum, með kaffibollann og sígarettu í munnvikinu, í hreinum fötum en mig grunar að hún hafi skítuga sál, helv. tu****!!!!!!

Þrefalt húrra fyrir konunni minni!!!! Sú á eftir að fá dekur þegar ég kem heim!!!!

Kveðja frá Hjerting, í síðasta sinn! IJ


Nýja íbúðin ...

BakgarðurinnÉg fékk afhenta lyklana af nýju íbúðinni okkar í dag. Hún er í Sonderis sem er fjölskylduhverfi í sömu fjarlægð frá miðbænum og Garðabær er frá miðbæ Reykjavíkur.

Hún er á 2 hæðum, 104 fm. Niðri eru herbergi, stofa, elhús og hol. Uppi eru 2 svefnherbergi, pallur og baðherbergi. Í bakgarðinum er leikvöllur fyrir krakkana og svo annar leikvöllur ca. 100 m. frá ásamt malbikuðum körfuboltavelli.

Í hverfinu eru svo 2 leikskólar í ca. 5 min. göngufæri og smá verslunarþyrping með matvöruverslun, pizzastað, pöbb og einhverju fleira. Ég er ca. 15 min að hjóla í skólann og ætti að vera svipað lengi heim aftur ...!! :-)

 Frábær dagur í Esbjerg, rok og rigning en sól í hjarta!!! Kv. IJ


Maður er bara sá sem maður er ...

Einhverstaðar las ég að eftir fótastærðinni mætti áætla það sem undir liggur.

Það minnir mig á söguna um manninn sem sat inni á bar með fætur uppi á borði. Ekkert athugavert við það í sjálfu sér nema hvað að hann var í nýjum kúrekastígvélum númer 48. Fljótlega fangaði hann athygli gæru-kvendis sem hugsaði sér gott til glóðarinnar og fékk hann því með sér heim.

Þegar hún hafði lokið sér af henti henti hún í hann tíuþúsundkalli. Manninum brá og vissi ekki alveg hvernig hann átti að taka þessu en ákvað að rétta henni peningana aftur. Sagði svo karlmannlega að hann þyrfti nú ekkert að fá greitt fyrir svona lagað, þetta hefði nú bara verið gaman! Þá sagði hún að þetta væri ekki greiðsla fyrir grínið en að hann skyldi bara kaupa sér skó sem pössuðu á hann ... Crying

Þessi saga er ágæt og það sem meira er að hún ber í sér boðskap sem gott er að minna sig á reglulega.

Í fyrsta lagi er alveg sama hver maður þykist vera, hið sanna innræti kemur alltaf í ljós fyrr en seinna. Skítur hefur þann eiginleika að fljóta upp á yfirborðið. Þegar maður kynnist fólki þá er það yfirleitt ekki töffaraskapur, hégómi, yfirborðsmennska eða "hér er ég, um mig frá mér til míns" sem heillar fólk. Einlægni, hreinskilni og heiðarleiki er það sem skilur á milli vina og kunningja. Þetta þekki ég mjög vel af eigin raun því það er ekki svo ýkja langt síðan að ég fattaði þetta sjálfur.

Í bókinni "How to Win Friends and Influence People" eftir Dale Carnagie talar hann um að besta leiðin til að vekja áhuga annara er að sýna þeim einlægan áhuga sjálfur. Önnur góð myndlíking er að það þarf fyrst að setja eldivið í arininn, kveikja svo upp og blása lífi í glæðurnar, svo kemur ylurinn og hlýjan.

Hin hliðin á sögunni snýr að konugreyinu. Hún gerði sér væntingar um eitthvað æðislegt.Devil  En þar liggur hinn hundurinn grafinn! Of miklar væntingar hafa mjög sterka tilhneigingu til að breytast í vonbrigði. Þegar búið er að fá rað-fullnægingu áður en að hamförum kemur er bæði voðinn vís og broddurinn farinn.

Gott dæmi um þetta er þegar ég bauð konunni minni út að borða í Keflavík um vorið 2002. Eftir matinn fórum við á fótboltaleik með Víði í Sandgerði á móti Hetti frá Egilstöðum hmmm? (til að kaupa smá tíma) Svo sagði ég henni að við þyrftum að koma við upp á Leifstöð að ná í Kristínu sem var skiptinemi hjá okkur, hún væri að koma með kvöldfluginu frá Köben.

Þegar við komum upp á völl og inn í flugstöðina kom það í ljós að það var engin vé að koma frá Köben, það væri bara ein að fara þangað. Þá dró ég tvo flugmiða upp úr vasanum og spurði hvort hún væri til í að skreppa með mér í smá horny-moon yfir helgina. Ég myndi gefa mikið fyrir að eiga mynd af svipnum á henni þá. Ég var þá búinn að pakka fyrir hana í litla tösku naríum og náttfötum og sagði henni að við myndum bara kaupa á hana það sem uppá vantaði. Maður lifandi hvað þetta var frábær helgi!!! Ekkert planlagt, engar væntingar og því allt sem kom á óvart. Við erum sammála því bæði að þetta var besta helgarferðin okkar hingað til.InLove

Þetta er búin að vera frábær vika. Ég sakna fjölskyldunar meira en orð fá lýst en hugga mig við það að konan mín yndislega er að koma næstu helgi og við ætlum að eiga aðra horny-moon helgi saman í Köben. Og viti menn, við erum ekki búin að plana neitt. Við vitum bara að eigin raun að með því að gera okkur engar væntingar til helgarinnar verður hún bara meira spennandi fyrir vikið.

Ástar,- og saknaðar kveðjur frá Esbjerg - IJ


Hálfgerð helvítis martröð ...

Sá sem finnur til þakklætis í lífinu getur jafnframt notið þess.

Þegar maður er svona mikið einn eins og ég er þessa dagana rekur hugann oft að ýmsu sem ég gef mér oft ekki nægan tíma til að huga að. Það er þakklæti. Þakklæti fyrir allt það sem ég hef, fyrir alla sem ég hef kynnst í gegnum tíðina, öll þau ævintýri sem ég hef lent í og þannig gæti ég haldið endalaust áfram og farið í rúmið grátbólgin yfir því hvað þetta sé nú æðislegt alltsaman.

Ég varð fyrir því ótrúlega láni fyrir u.þ.b. sex árum að veikjast alvarlega, svo alvarlega að um tíma þótti víst líklegra en hitt að ég myndi ekki hafa það af. Á sjö mánaða tímabili var ég lagður yfir tuttugu sinnum inn á spítala, lifði lengi á morfíni í æð (sem var frábært þangað til að það þurfti að venja mig af því) og um tveggja mánaða tímabil mátti engin heimsækja mig nema að vera í slopp og stígvélum vegna einhvers vírus sem ég var með í sýktum 20 cm opnum skurð á maganum sem vildi ekki gróa. Því var ég hafður í einangrun svo ég myndi ekki smita aðra á stofunni.

Á þessum tíma þurfti ég líka að vera með stómapoka í fjóra mánuði á meðan innyflin á mér voru að gróa saman og til að gera mjög langa og dramatíska sögu stutta þá var þetta hálfgerð helvítis martröð á meðan á því stóð.

Ég hef ekki mikið viljað ræða þetta hingað til. En þegar ég lít tilbaka þá sé ég hvað þessi upplifun hefur haft mikil og jákvæð áhrif á mig á marga vegu. Ég gleymi því aldrei á meðan ég lá í einangruninni, með slöngur og nálar í mér út um allt, þegar ég horfði út á bílastæðið á Borgarspítalanum og fylgdist með fólkinu sem var að koma í vinnuna. Vá hvað ég öfundaði það rosalega! Ég sá það samt oft á fólkinu að því var alls ekki skemmt yfir því að vera að fara að vinna en ég hugsaði með mér að það serði sér enga grein fyrir því hvað það hefði það gott.

Ég var samt ótrúlega heppinn. Ég, eins og Hemmi Gunn, fékk annan séns. Annað tækifæri til þess að láta drauma mína rætast. Þessvegna segi ég að það hafi verið mikil gæfa fyrir mig að lenda í þessum veikindum og sigrast á þeim.

Þó að ég tali um að ég hafi sigrast á veikindunum þá er það ekki nema hálfur sannleikurinn. Á bak við mig stóðu eins og klettar þeir sem stóðu og standa mér næst, foreldrar mínir, konan mín, vinirnir og aumingja börnin. Mér finnst ég aldrei hafi þakkað þeim það að fullu. Ef að þið lesið þetta þá langar mig til að segja ykkur það að án ykkar efast ég um að ég hefði komist heill í gegnum þetta allt saman. Ég er viss um að þetta hefur tekið jafnmikið eða meira á ykkur eins og á mig.

Það sem færri vita er að í miðjum veikindunum, nánar tiltekið daginn áður en að ég fór í stóra aðgerð til að losna við stómapokann, þá átti ég fyrsta stefnumótið við konuna mína sem hangir ennþá með mér í dag, hana Sigrúnu. Annað stefnumótið okkar var á gjörgæslunni eftir aðgerðina þar sem ég fékk líka fyrsta kossinn. Svo heimsótti hún mig á spítalann á hverjum degi þangað til að ég útskrifaðist endalega sem mig minnir að hafi verið um miðja mars 2002. Þetta sýnir úr hverju hún er gerð og af hverju ég elska hana svona mikið. Hún hlýtur líka að hafa séð eitthvað í mér finnst hún gafst ekki upp á mér á þessum tíma ... InLove 

Ég er fullkomlega heilbrigður í dag. Ég hef ekki tekið eina einustu pillu síðan vorið 2002. Ég á fjögur frábær börn, yndislega konu, frábæra fjölskyldu, góða vini, ég er í skemmtilegu námi, ég er búinn að léttast um 12 kíló síðan í sumar, ég er að fara að fá fjölskylduna mína hingað út, vá hvað þetta er geggjað!!!!

Ég held að ég hafi aldrei verið eins þakklátur og hamingjusamur eins og í dag. Það er ekki vegna þess að ég sé svona heppinn heldur vegna þess að ég hef upplifað að eigin raun að lífið er of stutt og óútreiknanlegt til að kvarta, kveina og kenna öðrum um. Ég er minn eiginn gæfu smiður og einblíni á að sjá það góða í fólki og aðstæðum og finn það undantekningalítið og tek það með mér í gegnum daginn. Maður finnur alltaf það sem maður leitar að.Við erum öll 90% kostir og 10% gallar. 

 Ég reyni líka eftir fremsta megni að forðast neikvætt fólk, svartsýnissauði og grenjuskjóður sem sjá djöfla í hverju horni. Fólk sem nærist á óhamingju annara og er stöðugt veltandi sér upp úr vandamálum og harmsögum frá öðrum grenjuskjóðum, nöldurseggjum og ógæfugrísum.

 Maður finnur alltaf það sem maður leitar að!

Ps!
Ég setti inn lag á síðuna sem ég vil að verði spilað í jarðaförinni minni. Ekki það að ég sé að fara neitt. Ég hef ætlað að koma þessu til skila í langan tíma en hef ekki látið verða að því. Nú er það komið til skila. (Ekkert liggur á lag 13) Mér finnst lagið og textinn eiga vel við;

Ég hef séð þetta allt - og ég segi að þú skalt - Í upphafi kanna hvað er að - Því er hafinn er ferð - og að lokum eins þú sérð - að þú endar á sama stað!

Það verðu líka minn síðasti séns til að syngja fyrir (vonandi) fullu húsi!!! Whistling

Kveðja frá Esbjerg - IJ


Við erum búin að fá íbúð!!!!!

Smile Þegar ég kom heim úr skólanum í dag beið eftir mér bréf í póstkassanum frá leigumiðluninni. Þar var mér tjáð að ég væri búinn að fá íbúð frá og með 15. desember. JJJIIIIIIIBBBBBBÍÍÍÍÍÍÍ!!!!!!! Smile

Loksins fæ ég konuna mína og börnin mín hingað út til mín. Þetta eru búnir að vera fjandi einmannalegir mánuðir síðan ég kom hingað út. Reyndar hef ég flogið til íslands nánast aðra hverja helgi með þeim kostnaði og tíma sem það tekur. En ég hefði líklega ekki haldið geðheilsunni án þess að sjá fjölskylduna svona oft því að þegar maður á svona ung börn (1 & 4) og yndislega konu þá er maður að missa af svo miklu, svo rosalega miklu. Frown

Ég get ekki einu sinni byrjað að tjá mig um það hvað það verður gaman að fá þau. Íbúðin er í rólegu hverfi rétt utan við Esbjerg, svipað og Garðabær er frá Hafnarfirði, og er um 103 m2 á stærð með þremur svefnherbergjum. Í þessu hverfi búa fjórar íslenskar fjölskyldur með börn á okkar aldri og er leikskóli 100m frá húsinu þar sem þau verða bæði, Ásbjörn og Hjördís mín litla.

Er þetta ekki frábært alltsaman! Spennandi tímar framundan, eins og alltaf! Svo var ég að frétta það að skólinn sem ég er í er í samstarfi við "The University of Honolulu" á Hawai þar sem ég gæti klárað námið síðasta árið. Hmmm ...??? Spennandi tilhugsun en ætli það sé ekki best að fá konuna hingað út fyrst og svo get ég kanski platað hana til að koma við í Honululu á leiðinni heim.

Frábær dagur í dag!!! - Kveðja frá Esbjerg! IJ


Sjónvörp eru stórhættuleg ...

Það er ansi margt sem fer í gegnum hugann þegar maður hefur ekki sjónvarp.

Í þær 11 vikur sem ég hef nú búið í danmörku hef ég ekki haft sjónvarp til að drepa tímann. Ég hef þurft að drepa hann með annarskonar afþreyingu. Til að byrja með fannst mér tilveran bæði dapurleg, dauf og tilbreytingarlaus. Mér leið eins og alka sem var nýkominn úr meðferð. Eirðalaus og áttaviltur og vissi ekkert hvað ég átti við tímann að gera. Reyndar er sú samlíking svo slæm því að ég gerði mér enga grein fyrir því hversu háður ég var orðinn þessu sakleysilega morðtóli. 

Hefði einhver sagt við mig hér áður fyrr að ég ætti nú aðeins að slaka á í sjónvarpsglápinu hefði ég svarað að ég væri nú bara meðalmaður í þeim efnum og hefði getað bent á fjölda manna sem væru miklu verri en ég, enda horfði ég ekki á sjónvarpið nema 2-3 tíma á dag. Hvað er það þegar meðaláhorf í USA eru 7 klst á dag? Það sló mig aðeins þegar ég reiknaði það út að hver klukkustund sem við drepum fyrir framan sjónvarp á dag samsvarar 365 klst. á ári eða átta stunda vinnudegi frá 1. janúar til 1. mars án matar og kaffitíma.

Þergar skólinn byrjaði fann ég minna fyrir sjónvarpsleysinu. Þegar ég var búinn að læra hlustaði ég meira á tónlist, fór í sund á kvöldin, bloggaði, spilaði á gítarinn og er búinn að lesa einar 3 bækur sem hafa verið útundan ansi lengi.

Það sem stendur nú samt uppúr þessu öllu saman og er vert að deila er sú hugarró sem því fylgir að lifa eigin lífi í stað þess að sitja dofinn með fullan kjaftinn af flögum að horfa á aðra lifa sínu lífi sem er ekki einu sinni þeirra eigin, heldur hugarburður frá Hollywood skrifaður með það eitt í huga að halda athygli fólks frá eigin lífi fram að næsta auglýsingahléi þar sem það er svo upplýst um það hvað það hvernig hægt er að kaupa sér betra líf. Hmmmm?

Núna þegar ég lít tilbaka sé ég hverslags skaðvaldur þetta tæki er í raun og veru. Ég ég er ekki að grínast með það! Sjónvörp eru morðtól af hættulegustu og verstu gerð. Ég trúi því af einlægni að sjónvörp hafi framið fleiri sálarmorð en nokkur önnur tæki í heiminum. Ég horfði á sjónvarpið til að drepa tímann án þess að átta mig á því að með því að drepa hann þannig var ég að drepa sálina hægt og rólega í leiðinni.

Um árabil var ég með stutt námskeið sem hét; "Sigraðu sjálfan þig!" Þar lagði ég fyrir þátttakendur spurningu sem ég heyrði fyrst á námskeiði hjá Brian Tracy fyrir 10 árum síðan sem hljómaði svona:

Hvernig myndir þú verja tíma þínum ef þú fengir þær fregnir í dag að þú ættir eingöngu 6 mánuði eftir ólifaða?

Þetta er ágeng spurning sem fékk flesta til að skoða af einlægni hvað skipti þá mestu máli. Svörin voru frábær og ætluðu flestir að láta gamla drauma rætast og verja meiri tíma með sínum nánustu. Ég minnist þess ekki að nokkur hafi ætlað að horfa meira á sjónvarp!!!

Draumar rætast ekki fyrir framan sjónvörp. Sjónvörp drepa drauma!

Þetta var frábær dagur! - Kveðja IJ

 


Frábæri ég og fávitinn ég ...

Fyrir þá sem ekki vita þá er ég með klofinn persónuleika.

Ég samanstend af bæði frábæra mér og fávitanum mér. Fávitinn ég er stórhættulegur andskoti sem oftar en ekki hefur komið mér í tóm vandræði. Svo er það frábæri ég sem hefur verið meira áberandi undanfarið, sem betur fer!

Á hverjum degi þarf ég að minna mig á að hugsa jákvætt og vera glaður og þakklátur með það sem ég hef. Það er það eina sem ég get gert til að halda fávitanum mér í skefjum og frábæra mér sterkum. Ég næri þá báða með hugsunum mínum. Fávitinn ég blómstrar í neikvæðninni á meðan frábæri ég elskar allt sem gott er.

Ef ég gleymi mér þá er fávitinn ég fljótur að grípa inn í daginn því þeir hafa báðir sama aðgang gáfum mínun og gjörvileika. Það er frábæri ég sem skrifaði þetta í óþökk fávitans. Honum leiðist svona væl!

Þetta verður frábær dagur!

 


Þvílíkt skítastarf!

"Gott kvöld! Það lítur út fyrir að allt sé að fara til fjandans. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Stöðvar 2 er útlitið hreint ekki gott. Íbúar landsins kvarta og kveina, væla og kveina og heyrst hefur að sumir hafi grætt svo mikið í dag að harla ólíklegt er að aðrir fái nokkuð. Sjálfstæðismenn eru óheiðarlegir upp til hópa og framsókn á enga vini. Samfylkingin er sundurleit og Vinstri grænir eru illa sviknir..." Og svona heldur þetta andskotans væl áfram kvöld eftir kvöld eftir kvöld.

Það er hreint með ólíkindum þvílíkt óhemju magn af neikvæðni, svartsýni og helberum leiðindum ein fréttastofa nær að troða inn í vitund Jóns á bolnum sem situr dofinn með tveggja rétta 1944, algerlega berskjaldaður fyrir heilaþvottinum sem á sér stað. Svo má glögglega heyra afleliðingarnar daginn eftir í þætti sem heitir: Hvað var rætt um á þinni kaffistofu í dag? Þar fer Nonni bolur hamförum þegar hann bölsótast yfir því að Jónarnir á hans vinnustað sjái nú ekki mikið réttlæti í heiminum. Á meðan hann og Jón vinur hans séu með skítalaun þá séu aðrir að græða milljónir á milljónir ofan!!!!!

Svona heldur svo hringrásin áfram. Jón á bolnum bíður spenntur eftir "skammtinum" sínum kl. 18:30 sem ná yfirleitt að svala tuðþörfinni daginn eftir, allavega fram að hádegis-leiðindum.

Hver kannast ekki við það að láta sig hverfa langa helgi eða jafnvel 1-2 vikur. Svo þegar heim er komið tala flestir um að þetta hafi nú verið frábær hvíld og mikil afslöppun. Það sem fólk áttar sig kanski ekki á, er það að ríflega helmingurinn af hvíldinni fólst í því að losna við kvartið og kveinið, vælið og veinið, nöldrið og nagið sem DYNUR á þeim allan daginn, alla daga, allan ársins hring í formi fréttaflutnings.

Það hljóta einhverjar annarlegar hvatir að liggja að baki þegar menn vinna alla daga við að þefa uppi skít, moka honum svo inn á fréttastofu og dreifa honum svo þaðan inn á hvert heimili í landinu.

Á morgun ætla ég að senda blóm upp á fréttastofu. Kanski vantar þessum mönnum bara smá kærleika. Það hlýtur að vera erfitt að vera fréttamaður á íslandi í dag. Þvílíkt skítastarf!!!

Hlakka til að koma heim! - Kveðja frá Esbjerg - Ingvar 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband